Landamerki
Landamerki eru mörkuð skil á milli tveggja bújarða, til dæmis með girðingu, læk eða öðrum kennileitum. Í Landamerkjabækur voru skráð og staðfest opinberlega landamerki jarða.
Samkvæmt Landamerkjalögum frá 1882 var hver landeigandi gerður skyldugur til þess að halda við glöggum landamerkjum fyrir jörð sína, hvort sem hann bjó á henni eða ekki. Sama gilti um umsjónarmenn jarða, sem ekki voru eign einstakra manna. Sama regla gilti um afrétti og aðrar óbyggðar lendur, eftir því sem við yrði komið. Þar sem ekki væru glögg landamerki, sem náttúran hefði sett, svo sem fjöll, gil, ár eða lækir, en sjónhending réði, skyldi setja marksteina eða hlaða vörður á merkjum með hæfilegu millibili, hlaða merkjagarð eða grafa merkjaskurð. Eigandi eða umráðamaður hverrar jarðar skyldi skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar og geta ítaka eða hlunninda, sem aðrir ættu í land hans, svo og þeirra sem jörð hans ætti í annarra manna lönd. Merkjalýsinguna skyldi hann sýna hverjum, sem ætti land til móts við hann, og eigendum lands, sem hann teldi jörð sína eiga ítak í. Skyldu þeir rita samþykki sitt á lýsinguna, hver fyrir sína jörð. Þegar samþykki hefði verið fengið og áritað, átti að afhenda hana sýslumanni til þinglesturs á næsta manntalsþingi.
Sýslumenn í hverju umdæmi færðu landamerkjalýsingar í sérstakar landamerkjabækur, sem eru hér birtar. Hægt er að fletta bókum og sjá uppskriftir af lýsingum einstakra jarða, en einnig hægt að leita að jörðum á vefsjá.
Hér má fræðast nánar um sögu landamerkja og landamerkjalýsinga: ordabelgur.skjalasafn.is/kb/landamerki-landamerkjabaekur