Um heimildirnar

Landamerki

Landamerki eru mörkuð skil á milli tveggja bújarða, til dæmis með girðingu, læk eða öðrum kennileitum. Í Landamerkjabækur voru skráð og staðfest opinberlega landamerki jarða.

Samkvæmt Landamerkjalögum frá 1882 var hver landeigandi gerður skyldugur til þess að halda við glöggum landamerkjum fyrir jörð sína, hvort sem hann bjó á henni eða ekki. Sama gilti um umsjónarmenn jarða, sem ekki voru eign einstakra manna. Sama regla gilti um afrétti og aðrar óbyggðar lendur, eftir því sem við yrði komið. Þar sem ekki væru glögg landamerki, sem náttúran hefði sett, svo sem fjöll, gil, ár eða lækir, en sjónhending réði, skyldi setja marksteina eða hlaða vörður á merkjum með hæfilegu millibili, hlaða merkjagarð eða grafa merkjaskurð. Eigandi eða umráðamaður hverrar jarðar skyldi skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar og geta ítaka eða hlunninda, sem aðrir ættu í land hans, svo og þeirra sem jörð hans ætti í annarra manna lönd. Merkjalýsinguna skyldi hann sýna hverjum, sem ætti land til móts við hann, og eigendum lands, sem hann teldi jörð sína eiga ítak í. Skyldu þeir rita samþykki sitt á lýsinguna, hver fyrir sína jörð. Þegar samþykki hefði verið fengið og áritað, átti að afhenda hana sýslumanni til þinglesturs á næsta manntalsþingi.

Sýslumenn í hverju umdæmi færðu landamerkjalýsingar í sérstakar landamerkjabækur, sem eru hér birtar. Hægt er að fletta bókum og sjá uppskriftir af lýsingum einstakra jarða, en einnig hægt að leita að jörðum á vefsjá.

Hér má fræðast nánar um sögu landamerkja og landamerkjalýsinga: ordabelgur.skjalasafn.is/kb/landamerki-landamerkjabaekur

Jarðamat

Jarðamat er opinber skráning á jörðum og verðgildi þeirra. Þar er jörðinni lýst, gæðum hennar og hlunnindum sem gátu fylgt henni. Hér er birt jarðamat frá 1804 og 1849.

Í kjölfar siðaskipta fjölgaði mjög konungseignum. Þá var farið að leggja áherslu á að færa jarðabækur yfir jarðeignir konungs og kirkju. Árið 1552 var Poul Huitfeldt höfuðsmanni falið að láta gera jarðabók yfir allt veraldlegt og andlegt góss á Íslandi. Til eru í Þjóðskjalasafni allmargar jarðabækur frá fyrri öldum. Þekkust er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. En þeim var falið árið 1702 að gera lýsingu á öllum jörðum á Íslandi. Skyldu þeir kanna dýrleika jarða, landskuld, kúgildatölu og kvaðir á hverri jörð, auk hlunninda, sem þeim fylgdu, og skrá nákvæmlega fjölda búpenings á hverri jörð.

Á 19. öld voru gerð allmörg jarðamöt. Hér er birt jarðamat frá 1804 og 1849. Geta ber þess að einungis er birtur hluti jarðamatanna en vonir standa til að hægt verði að bæta við fleiri viðlíka heimildum á næstu misserum.

Hér má fræðast nánar um sögu Jarðamata: ordabelgur.skjalasafn.is/kb/fasteignamat-jardabok-jardamat

Fasteignamat

Fasteignamat er opinber skráning á verðgildi fasteignar. Þar er eigninni lýst og hér er birt fasteignamat frá 1916-1918.

Árið 1915 voru samþykkt lög á Alþingi um að allar jarðeignir, lóðir og hús á Íslandi skyldi meta til peningaverðs tíunda hvert ár. Fyrsta mat eftir lögunum skyldi fara fram árin 1916–1918 og því næst 1930 og svo hvert ár, er ártalið stæði á tug. Ef fasteign varð fyrir miklum skemmdum eða verðmæti rýrnaði til muna milli þess, sem lögákveðið mat færi fram, gat eigandi krafist endurvirðingar. Fyrsta matið sem gert var eftir þessum lögum er birt hér skipt eftir sýslum. Hægt er að fletta bókunum en gögnin hafa ekki verið tengd einstökum eignum. Fyrirhugað er að bæta úr því og einnig að tengja gögnin við eignir í þéttbýli.

Hér er hægt að fræðast um sögu fasteignamata á Íslandi: ordabelgur.skjalasafn.is/kb/fasteignamat-jardabok-jardamat

Túnakort

Túnakort eru opinberar teikningar af túnum og matjurtagörðum sem sýna áttu flatarmál og ummál túna og garða.

Ræktunarfélag Norðurlands átti frumkvæði að því að gera uppdrætti af túnum og matjurtagörðum. Á Búnaðarþingi árið 1913 samþykkti Búnaðarfélag Íslands að beina málinu til Alþingis. Það samþykkti lög um mælingar á túnum og matjurtagörðum árið 1915 og ári síðar var sett reglugerð. Atvinnumálaskrifstofa stjórnarráðsins (frá 1922 Atvinnumálaráðuneyti) hafði yfirumsjón með framkvæmd mælinganna. Sýslunefndir og búnaðarsambönd sáu um framkvæmdina og réðu búfræðinga og aðra sem metnir voru hæfir til að annast mælingar og uppdrætti. Mæla átti öll tún og matjurtagarða á landinu að kaupstöðum frátöldum. Túnakortin voru gerð á tímabilinu 1916–1930 og er mælikvarði þeirra 1:2000. Í Þjóðskjalasafni eru varðveittir ríflega 5.500 uppdrættir úr rúmlega 200 hreppum. Þeir eru yfirleitt greinargóðir en misjafnlega hefur verið vandað til þeirra. Á þeim má finna útlínur túns heimajarðarinnar ásamt bæjum, útihúsum, kálgörðum og fleira. Þá fá aukaupplýsingar stöku sinnum að fljóta með eins og sjá má á túnakorti Hlíðarenda í Fljótshlíð en þar hefur skálatóft Gunnars á Hlíðarenda verið teiknuð inn á uppdráttinn.

Hægt er að sjá túnakort fyrir einstakar jarðir á vefsjá.

Um túnakort má fræðast hér: Elín Ósk Hreiðarsdóttir, „Svipmynd af menningarlandslagi. Íslensk túnakort frá fyrri hluta 20. aldar“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 108 (2017) , bls. 95–152. timarit.is/page/7381442