Uppskrift
Ár 1887, þriðjudaginn hinn 10. dag Maímán. var aukaréttur Þingeyjarsýslu settur og haldinn að Ási í
Kelduhverfi af sýslumanni B. Sveinssyni með undirskrifuðum vottum til að nefna menn í dóm í
landaþrætu milli jarðanna Fjalla og Auðbjargarstaða á eina hlið
og jarðarinnar Lóns á hina. Í réttinum
mætti aðili málsins, bæði vegna Fjalla og Auðbjargarstaða, sem eiga land óskift saman,
sýslunefndarmaður Erlendur Gottskálkson í Ási. Lagði hann fram fullmakt dags. 20. Desbr. 1884, og 8.
þ.m. og eftirrit af sáttabók Keldunessáttaumdæmis um árangurslausa sáttatilraun í málinu og vísan
málsins til merkjadóms. Þessi skjöl einkennast tölul. 1. og 2 og eru svohljóðandi.
Fyrir réttinum mætti einnig, ístefndur, varnaraðili hreppstjóri Árni Kristjáns í Lóni fyrir hönd þessar
jarðar, sem hann er ábúandi á. Lagði hann fram umboðsskjal dags. 11. Júní 1886 einkennt tölul. 3
svohljóðandi …
Að svovöxnu máli nefndi sýslumaðurinn þessa 8. menn í dóm:
1.Björn hreppstjóra Jónsson í Sandfellshaga
2.Björn bónda Gunnlögsson í Skógum
3.Indriða bónda Ísaksson í Keldunesi.
4.Pál hreppsnefndaroddvita Jóhannesson í Árnanesi
5.Sigurjón bónda Halldórsson á Kvíslarhóli
6.Þorberg bónda Eiríksson í Syðri-Tungu
7.Jón hreppstjóra Jónsson á Hringveri og
8.Þorberg hreppsefndaroddvita Þórarinsson á Sandhólum
Skoraði sýslumaðurinn á málsaðila, að nefna hvor um sig 2 menn úr dóminum, og nefndi varnaraðili
þá úr.
1.Björn hreppstjóra Jónsson í Sandfellshaga og
2.Þorberg bónda Eiríksson í Syðri-Tungu
En sóknaraðili
1.Indriða bónda Ísaksson í Keldunesi og
2.Pál hreppsnefndaroddvita Jóhannesson í Árnanesi.
Samkvæmt þessu verða dómsmenn auk sýslumannsins:
1.Björni bóndi Gunnlögsson í Skógum
2.Sigurjón Halldórsson á Kvíslarhóli
3.Jón hreppstjóri Jónsson á Hringveri og
4.Þorbergur hreppsnefndaroddviti Þórarinsson á Sandhólum.
Varð það síðan samkomulag að merkjagangan skyldi fram fara Laugardaginn 17. September
næstkomandi, og skyldu dómsmenn mættir að Lóni um hádegi nefndan dag. Málspartar komu sér
saman um, að heyra vitni ístefnd. Upplesið.
Rétturinn hafinn.
B. Sveinsson.
E Gottskálksson
Á Kristjánsson
Þingsvitni:
Björn Árnason
Þórður Jónsson
Ár 1887, laugardaginn hinn 17. dag Septembermán. var aukaréttur Þineyarsýslu settur og haldinn að
Lóni í Kelduhverfi af sýslumanni B. Sveinssyni með undirskrifuðum vottum. Þess skal getið að Björn
bóndi Gunnlögsson í Skógum sem 10. maí síðastl. var nefndur í dóm í landamnerkjamálinu milli
Lóns[Fjalls] og Auðbjargarstaða á eina hlið og Lóns í Kelduhverfi á hina, hafði tjáð sýslumanninum, að
hann sökum forfalla eigi gæti mætt og setið í dóminum. Var því í stað Björns bónda Gunnlögssonar
nefndur í merkjadóminn Þórarinn bóndi Björnsson á Víkingavatni, sem var viðstaddur. Málsaðilar,
sem einnig voru til staðar höfðu ekkert á móti þessum dómsmanni. Upplesið.
Rétti slitið.
BSveinsson
Réttarvitni:
Guðm Guðmundsson
Þ. Þórarinsson
Ár 1887, Laugardaginn hinn 17. dag Septembermán. var merkjadómur Þingeyarsýslu settur og
haldinn að Lóni í Kelduhverfi í Landamerkjamálinum milli þeirrar jarðar á eina hlið og Fjalla og
Auðbjargarstaða í sömu sveit á hina.
Í dóminum sátu auk sýslumannsins í Þineyarsýslu B. Sveinssonar, eftir útnefningu 10. maí þ.á. og
frá í dag.
1. Þorbergur Þórarinsson sýslunefndarmaður á Sandhólum
2. Sigurjón bóndi Halldórsson á Kvíslarhóli Hallbjarnarst
3. Jón hreppstjóri Jónsson á Hringveri og
4. Þórarinn bóndi Bjarnarson á Víkingavatni.
Rituðu þeir undir svohljóðandi eiðspjall:
Eg Þorbergur Þórarinsson, eg Sigurjón Halldórsson, eg Jón Jónsson og eg Þórarinn Björnsson, lofa og
sver, að leysa dómstarfa þann af hendi, sem eg hefi verið kvaddur til, í landamerkjamálinu milli Fjalla
og Auðbjargarstaða á eina hlið og Lóns í Kelduhverfi á hina eftir beztu þekkingu og samvizku. Svo
sannarlega hjálpi mér Guð og hans heilaga orð.
ÞÞórarinsson, Sj. Halldórsson, JJónsson, Þorarinn Bjarnarson
Mættur var í dóminum fyrir hönd Fjalla samkvæmt áður framlagðri fullmakt (tölul. 1.) Erlendur
bóndi Gottskálksson í Ási, og lagði hann fram landamerkjaskrá dags. 20. nóvbr. 1885. Einnig var
mættur Auðbjargarstaða vegna Ásmundur Jónsson samastaðar samkvæmt fullmakt dags. 21. Sept.
1885. Þessi skjöl einkennast tölul. 4. og 5 og voru upplesin svohjóðandi ... Fyrir hönd jarðarinnar Lóns
mætti Árni hreppstjóri Kristjánsson samastaðar, og samkvæmt áður framlögðu umboðsskjali (tölul.
3). Lagði hann fram gjörð dags 1. okt. 1868, þá hina sömu, sem vitnað er til í áteiknun hans á hina
framlögðu landamerkjaskrá sóknaraðila. Þetta skjal einkennist tölul. 6. og var upplesið svohljóðandi
...
Þegar hér var komið málinu gengu dómsmenn og málsaðilar á merkin.
Rétturinn hafinn.
BSveinsson
ÞÞórarinsson
JJónsson
Sj. Halldórsson
Þ. Bjarnarson
Asm. Jónsson
EGottskálksson
AKristjánsson
Sama dag var merkjadómurinn í landamerkjamálinu milli Fjalla og Auðbjargarstaða á eina hlið og
Lóns í Kelduhverfi á hina, aftur settur á hinum síðastnefnda stað og af hinum sömu dómendum. Eftir
að þeir ásamt málsaðilum höfðu gengið á merkin og kynnt sér staðháttu og land það, sem málsaðilar
hvor í sínu lagi gera kröfu til , eftir skjölum þeim, sem áður eru nefnd.
Sóknaraðili Erlendur Gottskálksson framlagði sóknarskjal dags. í dag, ásamt fylgiskjölum;
einkennast skjöl þessi tölul. 7. og a-f og voru upplesin svohljóðandi ...
Eftir varnaraðili hafði um nokkrar stundir fengið frest til andsvara og skjölin léð, mætti hann aftur í
dóminum, og lagði fram vörn í málinu dags. í dag með 5 fylgiskjölum. Skjöl þessi einkennast tölul. 8
og a-e við tölul. 8. og voru upplesin svohljóðandi ...
Sóknaraðili bað bókað, að hann ekki gæti viðurkennt að vörn varnaraðila raskaði í neinu því er
hann hefði framfært í sókn sinni og mótmælti hann ennfremur gildi hinna framkomnu vitnisburða frá
hálfu verjanda.
Varnaraðili ítrekaði mótmæli sín gegn gildi vitnisburða og sóknargagna sóknaraðila.
Lögðu svo báðir málspartar málið í dóm.
Málið tekið upp til dóms.
Rétti slitið.
BSveinsson
ÞÞórarinsson
Sj. Halldórsson
JJónsson
Þ. Bjarnarson
EGottskálksson
AKristjánsson
Asm. Jónsson
Sama dag var dómurinn enn settur að fáum stundum liðnum, á hinum sama
stað og áður og af hinum
sömu dómendum. Var þá í landamerkjamálinu milli Fjalla og Auðbjargarstaða á eina hlið og Lóns í
Kelduhverfi á hina, kveðinn upp svolátandi
Dómur:
Sóknaraðilar máls þess, sem hér ræðir um, halda því fram, að hin réttu landamerki milli jarðanna
Fjalla og Auðbjargarstaða á einn veg og jarðarinnar Lóns annars vegar myndist af línu þeirri, er gangi
úr svonefndum Klofaklettum í gegnum miðjan austari Rifós til sjóar, og aftur suður á bóginn eftir
sömu línu upp að Sultagötu og svo til austurs eftir götunni móts við Sjónarhól, þar sem Fjalla og
Víkingavatns lönd koma saman.
Aftur hefir varnaraðili krafist þess, að merki þessi séu bein stefna úr Hesthöfða austanverðum
skamt fyrir vestan svonefnt Selnes í vestari Rifós til sjóar, og úr hesthöfðanum til suðurs í
Haukadalshól þangað sem lönd Víkingavatns og Fjalla mætast.
Dómendur verða nú að álíta að hvorigur af málsaðilum hafi komið fram með lögfulla sönnun fyrir
því, að þeir hafi verið eða séu réttir eigendur að þrætulandi því, sem innilykist af þessum
merkjalínum. Að vísu hafa þeir hvor í sínu lagi lagt fram nokkur skilríki fyrir því, að hvorn um sig hafi
viljað eigna sér land þetta, en skilríki þessi eru eftir eðli sínu á hvorigan bóginn svo vaxin, að á þeim
verði byggður eignadómur, því sem sönnun fyrir eignarétti að lögum verður hvorki talin lögfesta sú
sem sóknaraðili einkum hefir viljað byggja á, og því síður mótmæltir óeiðfestir utanréttarvitnisburðir
einstakra manna sem komið hafa fram frá beggja hálfu, sumpart óákveðnir og sumpart ósamhljóða,
og hvað því sérstaklega viðvíkur að varnaraðili hefir haldið fram gildi gjörðar þeirrar, um hin
umþrættu merki, sem réttarskjalið tölul. 6 inniheldur, þá getur hún þegar af þeirri ástæðu eigi talist
sem eignarheimild til þrætulandsins, að hún er gerð án allrar tilhlutunar frá hálfu eigenda
Auðbjargarstaða, sem er 1/6 óskift land úr heimajörðinni Fjöllum, eins og hann líka eftir á hefir
mótmælt gerð þessari, sbr. réttarskjalið tölul. f. við tölul. 7. Rannsókn dómendanna á staðháttunum
hefir heldur ekki getað gefið þeim neina fasta sannfæringu um það, að þrætulandið í heild sinni
tilheyrði fremur einni jörðinni en annari. Hið eina atriði, sem í þessu tilliti virðist verða lögð áherzla á,
er það, að á neðri hluta þrætulandsins, hinu svonefnda Selnesi sést garður, sem málaðilar við
merkjagönguna viðurkendu að væri hlaðinn af eiganda eða ábúanda Lóns fyrir víst 40 árum til
verndar og afnota varphólmum jarðarinnar, þar sem álíta má, að þrætulandið að þessu leyti hafi verið
í hefðarhaldi frá Lóns hálfu samkvæmt Jónsbókar landsleigubálk, kapitula 26. Þó þetta sé ekki upplýst
í málinu um þrætulandið í heild sinni.
Undir þannig lögðum málavöxtum hefir dómurinn komizt til þeirrar niðurstöðu, að skifta beri
þrætulandinu með hliðsjón af því, sem nú var sagt, samkvæmt grundvallarreglunum í
landamerkjalögunum 17. marz 1882, þannig, að landamerkjalínan á hinu umþrætta svæði skuli vera
bein stefna úr vestari garðsendanum í Selnesi yfir mitt skerið vestan við austasta Rifós og þaðan til
sjóar og suður á við aftur frá garðsendanum sömu beinu stefnu í Sultagötu og svo til austurs eftir
götunni móts við Sjónarhól þar sem lönd Víkingavatns og Fjalla koma saman. Eftir atvikum virðist
málskostnaður eiga að greiðast að jöfnu af báðum málsaðilum.
Því dæmist rétt að vera:
Landamerkjalínan á þrætulandinu á milli jarðanna Fjalla og Auðbjargarstaða á enn veg og jarðarinnar
Lóns hinsvegar skal vera bein stefna úr vestari garðsendanum í Selnesi yfir mitt skerið, vestan við
austasta Rifós og þaðan til sjóar, og suður á við aftur frá garðendanum sömu beinu stefnu í Sultagötu
og svo til austurs eftir götunni móts við Sjónarhól þar sem lönd Víkingavatns og Fjalla koma saman. –
Dagpeningar dómsmanna samtals 45 kr. auk ferðakostnaðar oddvita eftir reikningi og annan
málskostnað borgi málsaðilar að helmingi hvor.
Dóminum að fullnægja innan 15 daga frá lögbirtingu hans undir aðför að lögum.
Dómurinn var upplesinn í réttinum. Varnaraðili var viðstaddur en sóknaraðili eigi.
Dóminum sagt upp.
BSveinsson
ÞÞórarinsson
Sj. Halldórsson
JJónsson
Þorarin Bjarnarson